Þriðjudagur 27. nóvember 2012 Palestínski mannréttindafrömuðurinn dr. Mustafa Barghouti heimsækir Ísland á alþjólegum samstöðudegi Sameinuðu þjóðanna með réttindum palestínsku þjóðarinnar, þann 29. nóvember, og verður heiðursgestur á 25 ára afmælissamkomu Félagsins Ísland-Palestínu á Hótel Borg. Þar verður þeim tímamótum jafnframt fagnað að ár er liðið frá því Alþingi Íslendinga viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki, fyrst vestrænna ríkja.
Heimsókn Barghouti er skipulögð af Félaginu Ísland-Palestínu í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríksráðuneytið og mun hann jafnframt flytja fyrirlestur i hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 17:00 þennan sama dag undir yfirskriftinni Palestína – Vegferð til frelsis.
Mustafa Barghouti hefur lengi verið í fararbroddi talsmanna fyrir mannréttindum palestínsku þjóðarinnar og sennilega þekktasti talsmaður Palestínumanna sem er óháður stjórnvöldum, bæði Fatah og Hamas. Hann hefur verið gagnrýninn á þessar tvær stærstu pólitískar fylkingar Palestínumanna, en jafnframt unnið mikið að sættum þessara aðila. Árið 2007 gengdi hann stöðu upplýsingaráðherra í skammlífri þjóðstjórn Fatah, Hamas og annara hreyfinga sem fulltrúi óháðra. Hann hefur verið óspar á gagnrýni sína á palestínsku heimastjórnina fyrir undanlátssemi og spillingu sem þrífst í skjóli hennar.
Barghouti hefur verið staðfastur talsmaður þess að friðsamleg barátta íbúa Gaza og Vesturbakkans sé vænlegust til árangurs í frelsisbaráttu Palestínumanna. Hann hefur lengi talað fyrir tveggja ríkja lausninni í deilu Ísraels og Palestínu – þó hann tali nú opinskátt um það að sú lausn sé e.t.v. ekki raunhæf lengur, vegna síaukins landráns Ísraelsmanna í hertekinni Palestínu síðustu ár. Mustafa Barghouthi er nýkominn frá Gaza þar sem hann var meðan á nýyfirstöðnum árásum Ísraelshers stóð.
————————————————————————————
25 ÁRA AFMÆLI FÉLAGSINS ÍSLAND-PALESTÍNA – DAGSKRÁ
Afmælis- og samstöðuhátíð á Hótel Borg, Gyllti salurinn, þar sem fram m.a. koma fram Dr. Mustafa Barghouti, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og fjöldi tónlistarmanna. Húsið opnar klukkan 19:00, dagskrá hefst kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Ávörp flytja:
Dr. Mustafa Barghouthi, læknir frá Ramallah
Dr. Össur Skarphéðinsson, utanríksisráðherra
Amany El Gharib, frá Gaza og nemi við Alþjóðlegan jafnréttisskóla við HÍ
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína
Tónlist:
– Björgvin Gíslason
– Björn Thoroddsen
– Ellen Kristjánsdóttir & Eyþór Gunnarsson
– Snorri Helgason & Mr. Silla
– Svavar Knútur
– Unnsteinn Manuel Stefánsson (úr Retro Stefson)
————————————————————————————
DR. MUSTAFA BARGHOUTI
Mustafa Barghouti var fæddur í Jerúsalem árið 1954 en hefur búið í Ramallah á Vesturbakkanum stærstan hluta lífs síns. Dr. Mustafa er hjartalæknir en hefur einnig menntun í rekstri og stjórnun frá Bandaríkjunum. Hann hefur verið í fararbroddi fyrir starfsemi óháðra mannúðar- og mannréttindarsamtaka í Palestínu í áratugi, m.a. sem stofnandi Union of Palestinian Medical Relief Committees (UPMRC) árið 1979 og regnhlífarsamtakanna Health, Development, Information and Policy Institute (HDIP) 1989. HDIP átti síðan frumkvæðið að stofnun Palestine Monitor, upplýsingagátt frjálsra félagasamtaka í Palestínu sem birtir skýrslur og fréttir frá herteknu svæðunum.
Barghouti var hluti af sendinefnd Palestínumanna á Madrid friðarráðstefnunni árið 1991. Árið 2005 bauð hann sig fram í stöðu forseta Palestínu sem óháður frambjóðandi og hlaut tæplega 20% atkvæða, meðan fulltrúi PLO, Mahmoud Abbas, sigraði með 62% atkvæða (Hamas sniðgekk kosningarnar). Barghouti gegndi árið 2007 stöðu upplýsingaráðherra í skammlífri þjóðstjórn Fatah, Hamas og annara hreyfinga sem fulltrúi óháðra.
————————————————————————————
UM FÉLAGIÐ ÍSLAND-PALESTÍNA
Það var þann 29. nóvember 1987 sem Félagið Ísland-Palestína var stofnað. Tíu dögum síðar síðar hófst Inftifada, uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum, Vesturbakkanum og Gaza, gegn hernámi Ísraelsmanna. Það er engin tilviljun að dagurinn 29. nóvember varð fyrir valinu sem stofndagur félagsins. Árið 1977 hafði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna útnefnt daginn sem árlegan samstöðudag með réttinum palestínsku þjóðarinnar, fyrir sjálfsákvörðunarrétti og rétti flóttafólks til að snúa aftur til heimalands síns. Á þessum sama degi, þrem áratugum áður, höfðu Sameinuðu þjóðirnar samþykkt skiptingu Palestínu í ríki gyðinga og Palestínuaraba, þar sem hvor um sig áttu að fá nokkurvegin helming landsins en tveim áratugum síðar var allt landið á valdi nýstofnaðs ríki gyðinga, Ísraels.
Meðal markmiða félagsins eru;
- Að stuðla að jákvæðum viðhorfum meðal Íslendinga til ísraelsku og palestínsku þjóðanna og vinna gegn aðskilnaðarstefnu og hver kyns mismunun á grundvelli uppruna, ætternis eða trúarbragða.
- Að kynna baráttu Palestínumanna gegn hernámi og fyrir sjálfsákvörðunarrétti og rétti palestínskra flóttamanna til að hverfa aftur til síns heimalands.
- Að beita sér fyrir því, að Íslendingar leggi sitt af mörkum til þess að réttlát og friðsamleg lausn finnist á deilu Ísraela og Palestínumanna á grundvelli alþjóðaréttar og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með tilliti til allra samþykkta Sameinuðu þjóðanna sem varða deiluna.
Lög og markmið Félagsins Ísland-Palestína
http://www.palestina.is/log_fip.pdf
Um Félagið Ísland-Palestína
http://www.palestina.is/upplysingar/um/
————————————————————————————
Hlekkir:
- The Palestine Monitor, upplýsingagátt frjáslra félagasmtaka í Palestínu – http://www.palestinemonitor.org
- Mustafa Barghouti, heimasíða – http://www.mustafabarghouthi.org
- Félagið Ísland-Palestína – http://www.palestina.is
- Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands – http://www.stofnanir.hi.is/ams/
Frekari upplýsingar:
Sveinnr Rúnar Hauksson, formaður Fíp, 616 7857

