Af aðalfundi 2011 + árskýrsla

Af aðalfundi 2011 + árskýrsla Þriðjudagur 19. apríl 2011

Aðalfundur félagsins var haldinn í Norræna húsinu 31. mars. Fundurinn var einkar vel sóttur og yfir 60 manns mættir.
Á undan hefðbundnum aðalfundarstörfum leiddi Bogi Ágústsson fréttamaður samræðu Jóhönnu Kristjónsdóttur, blaðamanns, rithöfundar og formanns VIMA, Vináttufélags Miðausturlanda og Salmanns Tamimi tölvunarfræðings og formanns Félags múslima á Íslandi um umbrotin í Arabaheiminum og áhrif þeirra á Ísrael og Palestínu. Þetta fundarform heppnaðist vel og var samræðan bæði áhugaverð og uppörvandi. Eftir nærri klukkustundar samræðu þremenninganna fluttu Langholtsdætur, sem er söngsveit sjö ungra kvenna úr Graduale Nobili, nokkur létt lög. Vakti þessi flutningur hrifningu fyrir glæsileik og góða samstillingu.

Að lokinni skýrslu formanns (sjá greinar) og gjaldkera var gengið til stjórnarkjörs. Fyrri stjórn sem saman stendur af sjö aðal- og sjö varamönnum var endurkjörin nema hvað Haukur Sveinsson lét af störfum og voru þökkuð mikil og vel unnin störf. Í hans stað var kjörin Björg Árnadóttir. Fundinum lauk með umræðu um starfið framundan.

Hægt er að nálgast ársskýrslu fyrir starfsárið 2010-2011 hér (pdf).