Ályktun frá Félaginu Ísland-Palestína og mótmælastaða

Þriðjudagur 1. júní 2010

Félagið boðaði til mótmælastöðu með nokkurra klukkustunda fyrirvara við Utanríkisráðuneytið vegna árása ísraelsher á skipalest með hjálpargögn þar sem ályktunin var afhent utanríkisráðherra. Þrátt fyrir lítinn fyrirvara mættu um 200 manns á mótmælastöðuna.

Eftir mótmælastöðuna og afhendingu ályktunar félagsins fóru forsvarsmenn félagsins á fund Utanríkisnefndar Alþingis. Er þetta í fyrsta sinn í 23 ára sögu félagsins sem félaginu er boðið að hafa fulltrúa á fundi nefndarinnar.


ÁLYKTUN FRÁ FÉLAGINU ÍSLAND-PALESTÍNA

TIL ÍSLENSKRA STJÓRNVALDA, 31. MAÍ 2010

Skorað á íslensk stjórnvöld að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael

Félagið Ísland-Palestína skorar á íslensk stjórnvöld að slíta þegar í stað stjórnmálasambandi við ísraelsk stjórnvöld. og beita sér jafnframt fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskipta-, íþrótta- og menningarsambandsbann verði sett á Ísrael þar til þarlend stjórnvöld fari að alþjóðalögum, fari að samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hætti ólögmætu umsátri og hernámi sínu á palestínsku herteknu svæðunum; Vesturbakkanum og Gaza.

Nýlegir atburðir á Miðjarðarhafi – þar sem Ísraelsher ræðst á alþjóðlega skipalest með hjálpargögn, friðarsinna, evrópskum þingmönnum, friðarverðlaunahafa Nóbels og eftirlifanda Helfarinnar – sýna að ísraelsk stjórnvöld eru ekki aðeins reiðubúin til að grípa til allra ráða að halda 1,5 milljón íbúum Gaza í áframhaldandi herkví og einangrun. Þeir telja sig komast upp með það.

Til þessa höfum við séð ísraelska hernámsliðið murka lífið úr íbúum Gaza, og koma í veg fyrir að erlendir aðilar og mannréttindarsamtök geti kynnt sér ástand mála á svæðinu með því að neita þeim um inngöngu. Þjóðir heims hafa til þessa horft aðgerðarlausar á framferði Ísraelsmanna gegn íbúum Gaza og annarstaðar í hertekinni Palestínu. Þegar frjáls félagasamtök og almenningur reynir með friðsamlegum hætti að rétta íbúum Gaza hjálparhönd, eins og nú með alþjóðlegri skipalest sem stefnt er til Gaza, eru viðbrögð hernámsliðsins skýr.

Með árás sinni á skipalest með hjálpargögn og friðarsinna er Ísraelsher að ráðast gegn þeim sem í verki, og friðasmlegum hætti, vilja hjálpa íbúum Gaza – og vekja um leið athygli á grimmilegu umsátri Ísraelsmanna.

Félagið Ísland-Palestína minnir á að samkvæmt aljóðalögum og yfirlýsingum Sameinuðu þjóðanna er Gaza hertekið svæði þar sem Ísraelsher ræður öllum landamærum, landhelgi og lofthelgi. Ísraelsher ræður jafnframt lögum og lofum á herteknum Vesturbakkanum, fyrir utan nokkra einangraða þéttbýliskjarna þar sem palestínska heimastjórnin fer með stjórn innri mála. Hernám Vesturbakkans og Gaza hefur staðið yfir frá árinu 1967, eða í 42 ár. Það er komið nóg!

Félagið Ísland-Palestína krefst þess að á íslensk stjórnvöld sýhni í verki andúð sýna á hernámi Ísraela í Palestínu, framferði Ísraelshers á palestínsku herteknu svæðunum og árásir á skipalest með hjálpargögn til handa íbúum Gaza.

Félagið Ísland-Palestína krefst þess að íslensk stjórnvöld láti ekki aðeins orðin tóm duga að þessu sinni heldur slíti stjórnamálasambandi við ísraelsk stjórnvöld tafarlaust.

– Stjórn Félagsins Ísland-Palestína