Laugardagur 29. janúar 2011 Á málþingu um hið eldfima ástand í Mið-Austurlöndum sem haldið var föstudaginn 28. janúar í Háskóla Íslands greindi Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Palestína, frá stöðu mála í Palestínu eftir nýlegt ferðalag um svæðið. Uppljóstranir Aljazeera-sjónvarpsstöðvarinnar síðustu daga, meira en 1.600 skjöl, „Palestínu-pappírarnir“ greina ekki síst frá náinni samvinnu palestínskra yfirvalda í Ramallah við ísraelsku leyniþjónustuna, sem og við CIA og MI6. Einnig greina þau frá mikilli eftirgjöf í samningaviðræðum, en þetta hefur þegar leitt til þess að Hamas-samtökin hafi dregið umboð sitt til baka gagnvart Abbas forseta. Hann geti því ekki lengur talist samningamaður allrar þjóðarinnar. Ræðu Sveins má lesa í heild sinni á vefnum. Athyglisvert er að í kynningu sinni fullyrt Bogi Ágústsson, fréttamaður Ríkissjónvarpsins, að samúð íslenskra fjölmiðla hefði legið með Ísrael fram að fjöldamorðunum í flóttamannabúðunum í Sabra og Shatila árið 1982 en þaðan af hefðu menn áttað sig á raunveruleika ísraelsks hernáms.
Aðalefni fundarins var þó ekki ástandið í Palestínu heldur í norðanverðri Afríku. Fréttir berast frá fjölmiðlum um mótmæli dag eftir dag í Túnis, þar hefur Ben Ali forseti hrökklast frá völdum og krafan virðist vera sú að stjórnarflokkurinn RCD verði leystur upp. Mohamed Bouazizi, Túnisbúinn sem kveikti í sér 17. desember 2010 í mótmælaskyni við bágar efnahagslegar framtíðarhorfur – sem leiddi til byltingarinnar í Túnis minnir á annan aktívista sem fórnaði sér fyrir málstaðinn við svipaðar aðstæður.
Þann 16. janúar 1969 kveikti Tékkinn Jan Palach í sér til þess að mótmæla innrás Sovétríkjanna í Tékkland til þess að kæfa umbótahreyfingu Alexanders Dubčeks. Magnús Þorkell Bernharðsson, sagnfræðingur, vill einmitt líkja aðstæðum á þessu svæði við falli ríkisstjórna í Austur-Evrópu eftir að Sovétríkin féllu. Ich bin ien Berliner segir Magnús, en bætir svo við, Ana min al-Qahira (Ég er frá Kairó). Í Egyptalandi virðist sambærileg fjöldahreyfing og í Túnis vera að fara af stað, þar hafa a.m.k. sex menn kveikt í sjálfum sér í mótmælaskyni. Það er mikið í húfi, yfir 79 milljónir manna búa í Egyptalandi. Landið er eitt það fjölmennasta í heimi, í 15. sæti eftir fólksfjölda. Hækkandi verð á mat hlýtur að hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir fólk í sömu stöðu og Bouazizi var í í Túnis. Munu öldur óánægjunnar lægja eða mun fárviðrið ná til Sádi Arabíu? Eða jafnvel lengra?

