Hverfandi Palestína

Hverfandi Palestína Sunnudagur 24. maí 2009

Upplýsingatexti og kort sem var á forsíðu Palestina.is frá áramótum 2008/09. Kortið sýnir hvernig land Palestínumanna hefur síðustu áratugi verið tekið af þeim. Stuttir upplýsingatextar um hverfandi Palestínu, Gaza svæðið og og Hamas samtökin.

Árið 1947 ákváðu hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir að skipta Palestínu (þá undir stjórn Breta) milli innfæddra Palestínumanna sem áttu að fá 45% landsins (grænt) og gyðinga, sem voru í miklum minnihluta í landinu og höfðu að stærstum hluta flúið ofsóknir Evrópumanna (grátt, 55% varð Ísrael). Palestínumenn sættu sig ekki við skiptinguna, en síðan hefur Ísraelsríki innlimað og hernumið afgang Palestínu.

Palestínumenn gera í dag kröfu til Vesturbakkans og Gaza (22%), sem Ísraelsmenn hernámi árið 1967. Hernámið varir enn þó Palestínumenn hafi fengið takmarkaða innri stjórn á smáum afmörkuðum þéttbýlissvæðum, gettóum umsetin hernámsliði, í kjölfar hins svokallaða friðarferlis sem hófst 1993. Með byggingu aðskilnaðarmúrsins á herteknu palestínsku landi (en ekki á landamærum ríkjana, eins og margir halda) eru Ísraelsmenn að ræna enn meira af landi Palestínumanna.

>> Gaza: Stærstur hluti 1,5 milljón íbúa Gaza eru flóttamenn sem hraktir voru af landi sem Ísraelsríki innlimaði, m.a. bænum al-Majdal þar sem nú stendur ísraelska borgin Ashkelon (wiki). Gaza hefur verið undir hernámi Ísraela frá árinu 1967. Ísraelsmenn drógu sveitir sínar og landsetumenn frá stærstum hluta Gaza svæðisins árið 2005 eftir kröftuga andspyrnu íbúana, en hefur síðan haldið því og íbúum þess í herkví. Ísraelsher stjórnar landamærum, land- og lofthelgi Gaza sem er enn samkvæmt alþjóðalögum og samþykkum S.þ. hernumið svæði.

>> Hamas: Samtökin voru stofnuð á Gaza svæðinu árið 1987, sem þá hafði verið undir ísraelsku hernámi í 20 ár. Andspyrna Palestínumanna gegn hernámi Ísraelsmanna hefur að stærstum hluta verið friðsamleg, en fjölmörg samtök hafa einnig beitt vopnaðri andspyrnu. Hernaðararmur Hamas hefur beitt vopnum gegn Ísraelsher, landtökumönnum hernámsliðsins – en einnig framið hryðjuverkaárásir gegn óbreyttum ísraelskum borgurum (m.a. sjálfsmorðsárásum, árin 1994-2005).

Hamas sigruðu naumlega í kosningum meðal íbúa herteknu svæðanna árið 2006, þegar hið svokallaða friðarferli Ísraels og PLO (þar sem Fatah er stærst og hefur mest völd) hafði staðið yfir í 13 ár og hvorki skilað Palestínumönnum eigið ríki eða frelsi frá hernáminu. Flestir kjörnir fulltrúar Palestínumanna sitja í ísraelskum fangelsum. Hamas hefur til þessa ekki viljað viðurkenna tilverurétt Ísraesríkis sem sérríkis ætlað gyðingum – og Ísraelsmenn hafa ekki viljað viðurkenna tilverurétt sjálstæðs ríkis Palestínumanna.