Kraftaverk á Gaza – Fótalaus kom gangandi heim

Kraftaverk á Gaza - Fótalaus kom gangandi heim Fimmtudagur 28. maí 2009

Hópur á vegum O.K. Prosthetics og Félagsins Ísland-Palestína er nú staddur á Gaza svæðinu, í þeim tilgangi að gefa og setja gervilimi á fólk sem misst hefur fætur í árásum Ísraelshers á svæðið.

Neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína fyrir Gaza greiðir fyrir efniskostnað gervilimanna, en O.K. Prosthetics, Össur Kristinsson og allir aðrir sem koma að þessu sameiginlega verkefni FÍP og O.K. Prosthetics gefa vinnu sína og standa fyrir ferðakostnaði sínum sjálf/ir.

Í hópnum sem er í ferðinni til Gaza eru þrír stoðtækjasmiðir á vegum O.K. Prosphetics; Össur Kristinsson, Johan Snyder (frá S-Afríku) og Óskar Þór Lárusson. Einnig eru með í för; Hjálmtýr Heiðdal og Ingvar Ágúst Þórisson heimildakvikmyndagerðarmenn, Sigrún Þorgeirsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Sveinsdóttir ritari og Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína.

* Kraftaverk á Gaza (Mbl.is, 25.5.2009)
Hópur Íslendinga, sem þessa daga er staddur í Palestínu í þeim tilgangi að gefa gervilimi, hefur undanfarna daga sett gervifætur undir tólf manns sem eru byrjaðir að ganga og jafnvel hlaupa. Þar af er einn sem hafði misst báða fætur. Stemningin og gleðin á stöðinni er ólýsanleg og þakklætið er óendanlegt.

* Fótalaus kom gangandi heim (Mbl.is, 21.5.2009)
„Maður heitir Hosni Talal og er 25 ára. Hann hafði verið einfættur í 4 ár þar til hann missti seinni fótinn við árás skriðdreka nú í janúar 2009. Össur og þeir gervilimasmiðir sem með honum eru hófust strax handa og eftir einn og hálfan tíma voru tilbúnir tveir gervilimir á Hosni og hann kominn á fætur eftir tvær klukkustundir og byrjaður að þjálfa sig.“