Föstudagur 15. október 2010 Í dag afhenti Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður Félagsins Ísland-Palestína fyrsta framlagið í Maríusjóð Aisha, félags til verndar konum og börnum á Gazasvæðinu. Aisha merkir: sá sem lifir af (suvivor á ensku). Félagið rekur sambærilega starfsemi og Stígamót og Kvennaráðgjöfin, en einnig er starfsþjálfun og endurhæfing undir sama þaki. Þá er leikfimisalur til staðar og aðstaða til akademískra rannsókna. Starfsemin er til fyrirmyndar og hefur í 15 ár verið rekin undir hatti hinna þekktu Geðhjálparsamtaka á Gaza (www.gcmhp.net), en mun frá næstu áramótum starfa sjálfstætt.
Maríusjóðurinn er kenndur við Maríu M. Magnúsdóttur hjúkrunarfræðing en hún starfaði í Lundúnum á stríðsárunum og alls í hálfa öld. María, sem varð 94 ára á Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn 10. október, býr á Blönduósi. Hún er eldhress og hefur um árabil verið helsti stuðningsaðili Neyðarsöfnunar FÍP.
Stefnt er að því að safna áskrifendum úr hópi kvenna og annarra sem styðja vilja konur og börn á Gaza, sem orðið hafa fyrir kynferðislegu eða heimilisofbeldi, með föstu mánaðarlegu framlagi. Lagt er til að það verði á bilinu 2400 til 12 þúsund krónur mánaðarlega (20-100 USD), en er að sjálfsögðu frjálst. Stefnt er að því að leggja inn í sjóðinn 5000 bandaríkjadali mánaðarlega í þrjú ár til að byrja með, frá 1. janúar 2011 og verður safnað áskrifendum að samstöðu með konum og börnum á Gaza.
Bankareikn.: 0542-26-6990
kt. 520188-1349.

