Fimmtudagur 30. desember 2010 Sendu gervifætur til Gasa
Fjórir félagar í Félaginu Ísland-Palestína héldu til Gaza fyrir jólin með efni í 36 gervifætur til viðbótar þeim sem smíðaðir voru í maí í fyrra og í nóvember síðastliðnum af liðsmönnum Össurar Kristinssonar og fyrirtækis hans OK Prosthetics.
Í haust var lögð áhersla á að ljúka þjálfun fólks á staðnum í smíði gervifótanna með aðferð Össurar sem gerir þeim kleift að smíða limina hvar sem er og ljúka verkinu á einum til tveimur klukkustundum í stað allt að tveggja vikna. Tvær palestínskar konur, stoðtækjasmiðir sem fengu sérþjálfun hjá Óskari Lárussyni, eru nú að hefjast handa við smíðar úr nýkomna efninu á einstaklinga sem misst hafa ganglim fyrir neðan hné. Áður höfðu 42 einstaklingar á ýmsum aldri, allt niður í sjö ára, fengið gervifætur frá OK Prosthetics og Félaginu Ísland-Palestína.
Félagið Ísland-Palestína safnar hverju sinni fyrir efniskostnaði við fæturna, sem er um 700$ eða rúmlega 80 þúsund kr. í dag. Sá kostnaður er aðeins lítill hluti af venjulegu verði gervilima.
Nú er í gangi Neyðarsöfnun fyrir Gaza á vegum FÍP og renna framlög merkt „Gervifætur til Gaza“ beint og óskert til þessa verkefnis. Reikningsnúmer er 542-26-6990, kt. 520188-1349.
Frekari upplýsingar veitir Guðfinnur Sveinsson í síma +972598068333 eða á guffi89@gmail.com.
Umfjöllun í miðlum:
- Pressan: Íslensk fjölskylda á Gaza á jólum: Icesave og AGS ekki dropi í haf vandamála sem aðrir glíma við
- Mbl.is: Sendu gervifætur til Gasa
- Vísir: Fjölskylda borgarfulltrúa færði Palestínumönnum gervifætur

