Ríkisfang: Ekkert

Ríkisfang: Ekkert Mánudagur 19. september 2011

Við vekjum athygli á bókinni Ríkisfang: Ekkert, sem er nýkomin í verslanir og fengið hefur frábærar viðtökur. Bókin varpar m.a. ljósi á stöðu ríkisfangslausra Palestínumanna sem búa í dag sem flóttamenn víða um heim og segir átaklega sögu flóttakvenna sem urðu að flýja heimili sín í Írak, og búa nú á Akranesi.

Mælum jafnframt með fundarröð Alþjóðastofnun Háskóla Íslands um málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum sem haldin er í tilefni útgáfu bókarinnar miðvikudagskvöldin 21. og 28. september – og 19. október. Meira hér.

RÍKISFANG: EKKERT
NÝ BÓK KOMIN Í VERSLANIR

Haustið 2008 flúðu átta fjölskyldur skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fengu hæli á Akranesi. Allt voru þetta einstæðar mæður með börn, af palestínsku bergi brotnar en höfðu alið allan sinn aldur í Írak. En hvað rak þær á flótta?

Sigríður Víðis kynntist konunum og sögu þeirra og fjallar hér af yfirsýn og þekkingu um landlausa Palestínumenn, innrásina í Írak, flóttamannabúðir í einskismannslandi og leiðina löngu á Skagann. Í forgrunni eru tvær þeirra kvenna sem hingað komu: Ayda sem varð að skilja elsta barnið sitt eftir í Írak og Lína sem flúði ásamt þremur ungum börnum og fann hamingjuna á ný á Íslandi.

Ríkisfang: Ekkert er einstök frásögn um pólitísk átök undangenginna áratuga í Mið-Austurlöndum og fólkið sem lifir og hrærist í skugga þeirra.

Í tilefni af útkomu bókarinnar standa Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Forlagið fyrir fundaröð um málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum. Nánari upplýsingar hér.

„Merkileg bók og vel skrifuð.“
Egill Helgason / Silfur Egils

„Bók Sigríðar Víðis er þrekvirki … Hún segir sögu palestínsku kvennanna með tvær þeirra í forgrunni og fléttar saman við heimssöguna með áhrifamiklum hætti þannig að lesandinn sogast með. Víkverji er þeirrar hyggju að Ríkisfang: Ekkert sé með því besta, sem gert hefur verið í íslenskri blaðamennsku og eigi erindi út fyrir landsteinana.“
Víkverji / Morgunblaðið

„Mögnuð bók … Magnaður lestur.“
Gerður Kristný / Bylgjan

„Bókin er í svo mörgum lögum. Hún er skrifuð svo sterkt og um leið ljóðrænt.“
Auður Jónsdóttir / Síðdegisútvarið, Rás 2

Höfundur: Sigríður Víðis Jónsdóttir


FUNDARRÖÐ UM MÁLEFNI FLÓTTAMANNA

OG STÖÐUNA Í MIÐ-AUSTURLÖNDUM

 

21. SEPTEMBER:
Er mögulegt að semja um frið í Palestínu?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra, ræðir friðarhorfur í Palestínu og segir frá starfi sínu með alþjóðlegum friðarsamtökum ísraelskra og palestínskra kvenna. Hvernig er að berjast þar fyrir breytingum?
Fundarstjóri: Bogi Ágústsson, fréttamaður hjá RÚV

28. SEPTEMBER:
Hvernig velur maður flóttafólk?
Kona með þrjú börn þarf lífsnauðsynlega að komast í burtu, eldri hjón sömuleiðis – hvern velurðu? Ingibjörg Broddadóttir, varaformaður flóttamannanefndar, segir frá ferðum sínum með íslensku sendinefndinni sem fer á vettvang og tekur viðtöl við flóttamenn. Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, fjallar um flóttafólk og í hvaða stöðu þau eru sem eiga engin skilríki.
Fundarstjóri: Ragna Árnadóttir, fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra.

19. OKTÓBER:
„Mission accomplished?“
Sveinn H. Guðmarsson, fréttamaður hjá RÚV, rifjar upp aðdraganda innrásarinnar í Írak í mars 2003 og veltir fyrir sér hvaða afleiðingar hún hefur haft á líf fólks í landinu. Hverjir fengu völd og hvernig?
Fundarstjóri: Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins

 

Allir eru velkomnir!