Mánudagur 27. júní 2011 „Í stuttu máli sagt reynum við, eins og við getum, að veita Palestínumönnum vernd með alþjóðlegri viðveru,“ segir Agnes Ósk Þorgrímsdóttir, sjálfboðaliði á Vesturbakkanum.
Agnes hefur undanfarið starfað með hjálparsamtökunum International Solidarity Movement og hyggst dvelja á Vesturbakkanum út sumarið.
Vinna hennar felst meðal annars í að veita alþjóðlega viðveru á friðsömum mótmælum Palestínumanna gegn hernámi Ísraela. „Ísraelskir hermenn sýna Palestínumönnum síður hrottaskap ef alþjóðaliðar eru nærri.“
Eftirlit við landránsbyggðir Ísraela á Vesturbakkanum er ennfremur veigamikið. „Við erum kölluð út ef ísraelskir landnemar ráðast á palestínsk nágrannaþorp, brenna uppskeru bænda eða hreinlega ráðast á heimamenn – allt í skjóli ísraelskra hermanna,“ segir hún.
„Á vettvangi tökum við skýrslu og ljósmyndir og komum efninu síðan áfram. Sama ferli á við ef gefin er út skipun um niðurrif á húsum, moskum og brunnum. Nema að ef niðurrifið hefur ekki átt sér stað, þá sendum við fólk á staðinn til að sporna gegn því að því verði framfylgt.“
Auk Agnesar halda fimm íslenskir sjálfboðaliðar til Palestínu á vegum Félagsins Ísland Palestína í sumar og koma til með að sinna margvíslegum verkefnum. „Það veitir af sem flestum,“ segir Agnes.

