Sjálfboðaliði á Vesturbakkanum: Alþjóðaliðar veita Ísraelsher aðhald

Hassan Mohammed, 17 ára gamall Palestínumaður, handtekinn af Ísraelsher í bænum Madaama á Vesturbakkanum. „Eftir að ísraelskir landnemar kveiktu í akri bæjarbúa réðust hermenn inn í þorpið og handtóku Hassan. Engin veit afhverju hann var sigtaður út. Vitni segja að hermennirnir hafi komið að hópi af krökkum og tekið hann af handahófi,“ segir Agnes Ósk sjálfboðaliði. Mánudagur 27. júní 2011

„Í stuttu máli sagt reynum við, eins og við getum, að veita Palestínumönnum vernd með alþjóðlegri viðveru,“ segir Agnes Ósk Þorgrímsdóttir, sjálfboðaliði á Vesturbakkanum.

Agnes hefur undanfarið starfað með hjálparsamtökunum International Solidarity Movement og hyggst dvelja á Vesturbakkanum út sumarið.

Vinna hennar felst meðal annars í að veita alþjóðlega viðveru á friðsömum mótmælum Palestínumanna gegn hernámi Ísraela. „Ísraelskir hermenn sýna Palestínumönnum síður hrottaskap ef alþjóðaliðar eru nærri.“

Eftirlit við landránsbyggðir Ísraela á Vesturbakkanum er ennfremur veigamikið. „Við erum kölluð út ef ísraelskir landnemar ráðast á palestínsk nágrannaþorp, brenna uppskeru bænda eða hreinlega ráðast á heimamenn – allt í skjóli ísraelskra hermanna,“ segir hún.

„Á vettvangi tökum við skýrslu og ljósmyndir og komum efninu síðan áfram. Sama ferli á við ef gefin er út skipun um niðurrif á húsum, moskum og brunnum. Nema að ef niðurrifið hefur ekki átt sér stað, þá sendum við fólk á staðinn til að sporna gegn því að því verði framfylgt.“

Auk Agnesar halda fimm íslenskir sjálfboðaliðar til Palestínu á vegum Félagsins Ísland Palestína í sumar og koma til með að sinna margvíslegum verkefnum. „Það veitir af sem flestum,“ segir Agnes.

 

Sjá ljósmynd í hárri upplausn.