Miðvikudagur 10. nóvember 2010 Ályktun Félagsins Ísland-Palestína vegna fyrirhugaðs vináttulandsleiks Íslands og Ísraels í knattpsyrnu þann 18. nóvember 2010.
Eftirfarandi ályktun var afhent Þóri Hákonarsyni, framkvæmdastjóra Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ), kl 14.00 í dag 10. nóvember 2010.
Félagið Ísland-Palestína harmar og mótmælir því að Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) kjósi að skipuleggja, fyrir hönd Íslands, vináttulandsleik við landslið Ísraels í knattspyrnu, á sama tíma og ísraelsk yfirvöld halda ólöglegu hernámi sínu í Palestínu til streitu og tilkynna um aukið landrán og byggingu landsetubyggða á herteknu palestínsku landi.
Með þessu er stærsta og öflugasta félagasamband íþróttafélaga á Íslandi að senda bæði ísraelskum yfirvöldum og íbúum hertekinnar Palestínu, sem búa við dagleg mannréttindarbrot og kúgun, skýr skilaboð.
- Í stað þess að taka undir ákall palestínskra mannréttindahreyfinga til heimsbyggðarinnar, um stuðning við friðsamlega baráttu íbúa herteknu svæðanna gegn hernámi í landi sínu, með þátttöku í alþjóðlegu fjárfestingar, viðskipta- menningar- og íþróttabanni á Ísrael – þar til ísraelsk stjórnvöld fari að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, ákveður KSÍ að leika vináttulandsleik við landslið hernámsveldisins.
- Þrátt fyrir að ný áform ísraelskra yfirvalda um aukið landrán og byggingu landsetubyggða séu skýlaust brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, og hafi siglt í strand friðarferli Ísraels og Palestínumanna, standa íslenskir knattspyrnumenn ekki aðgerðarlausir hjá heldur heimsækja Ísrael heim og leika vináttulandsleik við landslið hernámsveldisins.
KSÍ er hluti af Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) sem eru heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og æðsti aðili frjálsar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum.
Líkt og landslið Ísraels nýtur stuðnings og velvildar ísraelskra yfirvalda, nýtur landslið Íslands stuðnings íslenskra yfirvalda.
Félagið Ísland-Palestína krefst þess að KSÍ hætti þegar í stað við fyrirhugaðan vináttuleik Íslands og Ísraels í knattspyrnu. Alþjóðlegur þrýstingur og sniðganga, t.a.m. á sviði íþrótta, hafði gríðarleg áhrif á fall aðskilnaðarstjórnarinnar í Suður-Afríku og afnám hernáms hennar í Namibíu. Alþjóðleg sniðganga á hernámsstefnu Ísraels er friðsamleg leið til að sýna mannréttindum og alþjóðalögum virðingu.
Sendum ekki þau skilaboð frá Íslandi að hernám og mannréttindarbrot skipti okkur ekki máli.
Sýnum mannréttindarbrotum og landráni í Palestínu rauða spjaldið!
Sjá European BDS organizations campaigning to“ Give Israel the Red Card“

