Velheppnaður samstöðufundur 9. júlí

Velheppnaður samstöðufundur 9. júlí Laugardagur 10. júlí 2010

Fundurinn á Lækjartorgi safnaði á annað hundrað manns til stuðnings kröfum dagsins og alþjóðlegri sniðgönguherferð sem dagurinn var helgaður.

Ræðufólk fjallaði um aðskilnaðarmúrinn en í gær, 9. júlí voru sex ár liðin frá úrskurði Alþjóðadómstólsins um ólögmæti múrsins. Herkvíin um Gaza og ástandið þar var rætt, hernámið sem nú er orðið 43 ára, og lærdómar af baráttu gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku.

Ræður fluttu Salmann Tamimi, tölvunarfræðingur og formaður Félags múslima á Íslandi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, sagnfræðingur og baráttukona gegn Apartheid í Suður-Afríku og Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína. Á annað hundrað manns mættu á fundinn.

Kröfur dagsins voru: Niður með múrinn, Sniðgöngum ísraelskar vörur, Frelsi fyrir Gaza, Frjáls Palestína.

Ný heimasíða var opnuð í gær, 9. júlí undir vefstjórn Hrafns Malmquist, en Sigurbjörn Óskarsson og Hilmar Þór Jóhannesson unnu með honum að undirbúningi síðunnar. Það er félaginu fagnaðarefni að fá endurnýjaða heimasíðu, sem á að verða lifandi þáttur í starfi félagsins og opnari fyrir fréttum og greinum.

Sigurlaug flytur ræðu, Salmann ber fána