Fimmtudagur 5. janúar 2012 Frá árinu 2002 hafa á fimmta tug sjálfboðaliða lagt sitt af mörkum með milligöngu Félagsins Ísland Palestína. Þörf er á fleirum. Kynningarfundur á sjálfboðaliðastarfi félagsins fer fram fimmtudaginn 12. janúar kl: 17:00 í fundarsal Reykjavíkur Akademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð.
Sjálfboðaliðar á vegum félagsins hafa komið að skólastarfi og fræðslu í flóttamannabúðum, aðstoðað heimamenn við að skipuleggja friðsöm mótmæli gegn hernámi og aðskilnaðarmúr, liðsinnt á heilsugæslu og staðið vörð um réttindi hinnar kúguðu þjóðar með einum og öðrum hætti. Á árinu 2012 er fyrirhugað að fjölga samstarfsaðilum í Palestínu og koma á legg skyndihjálparverkefni í flóttamannabúðum.
Hvað svo sem sjálfboðaliði tekur sér fyrir hendur, hefur vera hans á Vesturbakkanum áhrif. Hermenn hika við hrottaskap í viðurvist Vesturlandabúa. Heimamenn skynja að umheiminum stendur ekki fullkomlega á sama. „Gríðarlega gestrisnir,“ eru orð sem sjálfboðaliðar hafa notað til lýsa kynnum sínum af Palestínumönnum þegar heim er komið og við tekur síðasta en ekki sísta hlið sjálfboðastarfsins: Að vera til frásagnar.

