Vilt þú gerast félagsmaður í Félaginu Ísland-Palestína?

Laugardagur 17. janúar 2009

Vilt þú gerast félagsmaður í Félaginu Ísland-Palestína?

Félagið Ísland-Palestína hvetur þá sem vilja sýna íbúum hertekinnar Palestínu stuðning í verki, og eru sammála lögum og markmiðum félagsins, til að ganga til liðs við félagið.

Með því að ganga í Félagið Ísland-Palestína er verið að styðja við mannréttindarbaráttu palestínsku þjóðarinnar, kröfuna um að hernámi Palestínu linni í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og Palestínumenn fái lífvænlegt, sjálfstætt og fullvalda ríki.

Um félagið

Félagið Ísland-Palestína var stofnað árið 1987 og fagnaði því 20 ára afmæli sínu í fyrra. Markmið félagsins var frá upphafi að stuðla að jákvæðum viðhorfum til palestínsku og ísraelsku þjóðanna og vinna gegn hvers hver kyns mismunun á grundvelli uppruna, ætternis eða trúarbragða.

Félagið vinnur að því að kynna baráttu Palestínumanna gegn hernámi og fyrir sjálfsákvörðunarrétti og rétti palestínskra flóttamanna til að hverfa aftur til síns heimalands. Það beitir sér fyrir því að Íslendingar leggi sitt af mörkum til þess að réttlát og friðsamleg lausn finnist á deilu Ísraela og Palestínumanna á grundvelli alþjóðaréttar og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með tilliti til allra samþykkta Sameinuðu þjóðanna sem varða deiluna.

Starfsemi Félagsins Ísland-Palestína

Félagið hefur frá árinu 2000 staðið fyrir neyðarsöfnun til handa íbúm hertekinnar Palestínu þar sem stutt hefur verið við ýmis mannúðarsamtök á svæðinu, m.a; Palestínsku læknahjálparnefndirnar (Palestinian Medical Relief Committees), Öryrkjabandalag Palestínu (Disabled Union of Palestine), Geðehilbrigðisverkefni Gaza (Gaza Community Mental Health Programme), æskulýðsstarfsemi Project Hope í Balata flóttamannabúðunum og Ahli Arab-spítalann á Gaza.

Rúmlega 30 Íslendingar hafa starfað á herteknu svæðunum sem sjálfboðaliðar á vegum félagsins. Félagið hefur jafnframt staðið fyrir heimsóknum frá Palestínu, fræðslufundum og útifundum, tónleikum, kvikmyndasýningum og öðrum menningarviðburðum, gefið út tímaritið ‘Frjáls Palestína’ og haldið úti vefsíðunni www.palestina.is.

Hvernig skráir maður sig?

Þeir sem vilja ganga í Félagið Ísland-Palestína geta gert það með því að senda tölvupóst með nafni, heimilisfangi, kennitölu og síma á palestina@palestina.is – eða skrá sig gegnum heimasíðu félagsins; www.palestina.is/fip/gerastfelagi

Félagsgjöld eru 1.800 kr á ári (eða 150 kr á mánuði) og eru notuð til fjármagna starfsemi félagsins (prentun, póstgjöld, heimasíða, leiga á fundarsölum, heimsóknir frá Palestínu o.s.frv.). Félagið hefur hvorki skrifstofu né starfsmenn. Allt starf félagsins er unnið í sjáflboðavinnu. Allur afgangur sem er af félagsgjöldum er notaður til að styðja við neyðaraðstoð til handa íbúum Palestínu.

Neyðarsöfnun fyrir Gaza

Félagið stendur nú fyrir neyðarsöfnun til handa íbúum Gaza svæðisins. Félaginu hefur borist neyðarbeiðni frá ísraelsku samtökunum Physicians for Human Rights þar sem beðið er um aðstoð við kaup á þeim nauðsynjum sem spítalar á Gaza hafa óskað eftir, svo sem lyfjum, rúmum, súrefni og sótthreinsuðum áhöldum. Stjórn félagsins hefur ákveðið að verða við þeirri beiðni og beinir því neyðarsöfnun sinni að því að styrkja PHR til kaupa á nauðsynlegum læknisbúnaði og hefur nú þegar sent $2.000 sem söfnuðust á útifundi 30. desember síðastliðinn.